Verslunarmannafélag Suðurlands

480-5000 — Fax: 480-5001 — vms@vms.is — Félag númer 541


Skoða launatöflurSkoða fréttabréf

ERLENT STARFSFÓLK Í BRENNIDEPLI

Einn réttur ekkert svindl

(Frétt af vef SGS)

 

Það hefur varla farið fram hjá neinum að fjölgun útlendinga á íslenskum vinnumarkaði hefur verið mikil undanfarin misseri og er ekki fyrirséð hver sú fjölgun mun endanlega verða. Þessi mikla fjölgun hefur því miður haft í för með sér stöðugt vaxandi vanda vegna undirboða á vinnumarkaði og tíð brot á kjarasamningum. Upp hafa komið fjölmörg dæmi um erlent starfsfólk sem starfar hjá erlendum „þjónustuveitendum með tímabundna starfsemi“  hér á landi sem fær laun og önnur starfskjör sem eru langt undir því sem íslenskir kjarasamningar kveða á um. Einnig er starfsemi starfamannaleiga vaxandi og þá eru einnig dæmi um gerviverktöku. Við þessari þróun er mikilvægt að sporna, m.a. með aukinni fræðslu og upplýsingagjöf sem og stórbættu eftirliti á vinnustöðum.

Lesa meira

4. febrúar 2016

Nýr samningur undirritaður

Skrifað hefur verið undir nýjan kjarasamning aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands við Samtök atvinnulífsins.

Samningurinn gildir frá 1. janúar 2016 til 31. desember 2018. Atkvæðagreiðsla verður kynnt á næstu dögum en henni þarf að vera lokið fyrir 26.2 2016. Kjarasamningurinn felur í sér verulegar viðbætur við þær hækkanir sem samið var um á síðasta ári fyrir félagsmenn. Samningurinn byggir á rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 27.10 2015 og bókun um lífeyrisréttindi frá 5.5. 2011 og er ætlað að tryggja jafnræði í kjaraþróun á grundvelli sameiginlegrar launastefnu og jöfnun lífeyrisréttinda.

Lesa meira

22. janúar 2016

Spurt og svarað um SALEK

Hvað er SALEK?

Svar: SALEK er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. SALEK er afrakstur vinnu sem hófst 2013 með úttekt BSRB, KÍ, BHM, ASÍ, SA og samninganefnda ríkis, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á umhverfi kjarasamninga á hinum Norðurlöndunum, þar sem áhersla var lögð á heildarendurskoðun samningalíkansins.

Lesa meira

19. janúar 2016

Frétt um mansal af vef Fréttatímans

24547_mansal-1-776x517

Tvær pólskar konur á þrítugsaldri réðu sig til starfa á gistiheimili á Suðurlandi en eigandinn var kærður til lögreglu vegna stórfelldra brota á kjarasamningi sem stéttarfélagið telur að flokkist undir mansal. Konurnar voru látnar vinna alla daga vikunnar og svara í síma gistiheimilisins nótt og dag.

Lesa meira

18. janúar 2016

Ályktun miðstjórnar ASÍ vegna úrskurðar kjararáðs um hækkun launa dómara

ASI_logo

Ályktun miðstjórnar ASÍ vegna úrskurðar kjararáðs um hækkun launa dómara

Miðstjórn ASÍ gagnrýnir harðlega ákvörðun kjararáðs um laun dómara og krefst þess að stjórnvöld setji á hátekjuskatta til þess að stemma stigu við ofurlaunum.

Á fundi kjararáðs þann 17. desember sl. úrskurðaði ráðið um meira en 40% hækkun á launum dómara og verulega hækkun á launum bankastjóra Landsbankans. Þessar launahækkanir eru úr öllum takti við þann veruleika sem þorri launafólks býr við. Miðstjórn ASÍ telur augljóst, að kjararáð sé með þessum úrskurði sínum að taka mið af þeirri ofurlaunaþróun sem átt hefur sér stað hjá stjórnendum fyrirtækja á undanförnum misserum. Þarna er verið að hækka hálaunahópa langt umfram aðra og  almenningur sér augljóslega ekki hvaða sanngirni er í því? Það er eitthvað bogið við samfélag sem hækkar mánaðarlaun hátekjufólks um fleiri hundruð þúsund krónur í einu vetfangi á meðan hluti þjóðarinnar berst í bökkum.

Miðstjórn ASÍ varar einnig við því að með þessum nýjustu hækkunum kjararáðs sé í reynd lagður grunnur að frekari launahækkunum æðstu embættismanna ríkisins. Í næstu lotu verður því væntalega haldið fram, að komin sé skekkja í myndina og forseti, ráðherrar og alþingismenn þurfi ámóta glaðning frá kjararáði.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands áréttar andstöðu sína við þessa þróun ofurlaunanna og vill undirstrika að þróun í kjörum æðstu forystumanna bæði atvinnulífs og á hinum opinbera vettvangi hefur aukið hér launamun og valdið mikilli reiði almenns launafólks. Afleiðingin er að sífellt er verið að endurnýja tilefni deilna og átaka í samfélaginu og lýsir miðstjórn ASÍ þessa aðila ábyrga fyrir afleiðingunum. Jafnframt krefst ASÍ þess að ríkisstjórn og Alþingi  bregðist við með þeim eina hætti sem getur skapað sátt meðal almennings og það er að taka hér upp alvöru hátekjuskatta á ofurlaun.

8. janúar 2016

Kennitöluflakk veldur miklu samfélagslegu tjóni

_LKI2650 (1)

Alþýðusambandið fagnar þeirri umræðu sem skapast hefur í framhaldi af ábendingum ríkisskattstjóra í nýjasta tölublaði Tíundar um það mikla samfélagslega tjón sem skattaundanskot og þá ekki síst kennitöluflakkið veldur. Niðurstaða ríkisskattstjóra er að það vanti 80 milljarða á ári upp á þær skatttekjur sem umsvifin í þjóðfélaginu gefa tilefni til.

Alþýðusamband Íslands hefur lengi gagnrýnt andvaraleysi og ótrúlegt langlundargeð stjórnvalda gagnvart kennitöluflakki og þeim skaða sem slík starfsemi veldur.  Í október 2013 lagði ASÍ framtillögur í 16 liðum um aðgerðir til að sporna við kennitöluflakki. Tillögunum fylgdi ítarleg úttekt á kennitöluflakkinu í íslensku samfélagi og afleiðingum þess.

Með úttektinni og tillögunum vildi ASÍ setja á dagskrá baráttuna gegn þessum skaðvaldi í íslensku atvinnulífi. Jafnframt bendir ASÍ á að kennitöluflakk og svört atvinnustarfsemi þrífast gjarnan hlið við hlið. Tillögurnar voru sendar ráðherrum ríkisstjórnarinnar og boðin fram liðveisla ASÍ við að uppræta þennan ósóma úr íslensku atvinnulífi. Það er skemmst frá því að segja að engin raunverulegur áhugi hefur komið fram hjá stjórnvöldum á að taka á kennitöluflakkinu af einhverri festu.

Það er von Alþýðusambandsins að umræðan nú verði til að ríkisstjórnin og Alþingi vakni til vitundar um mikilvægi þess að taka á þeirri alvarlegu meinsemd sem kennitöluflakkið er. Enn sem fyrr er ASÍ tilbúið til samstarfs í þeim efnum.

Hvað er kennitöluflakk?
Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hf./ehf.) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag tugi milljarða króna á ári.

Samfélagslegt tjón
Kennitöluflakk og misnotkun á félögum (hf./ehf.) með takmarkaða ábyrgð hefur alvarleg og víðtæk áhrif fyrir samfélagið allt:

•    Starfsmenn sem eiga útistandandi launakröfur á hin gjaldþrota félög auk þess að tapa starfi sínu og margvíslegum réttindum.

•    Fyrirtæki í hliðstæðum rekstri, og starfsmenn þeirra, sem standa skil á sínu en búa við skekkta samkeppnisstöðu vegna þeirra sem hafa rangt við. Birgja sem fá ekki greidda sína vöru og þjónustu og geta vegna ruðningsáhrifa slíks tjóns, sjálfir orðið gjaldþrota og einstaklingar sem eiga viðskipti við félagið.

•    Sameiginlega sjóði landsmanna sem verða af tekjum sem skipta a.m.k. tugum milljarða á hverju ári. Tekjum sem nýta mætti til að bæta heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi svo dæmi séu tekin.

6. janúar 2016

Nýtt tímaskráningar app

t_image568cdb484810c

Nýtt tímaskráningar app hefur verið tekið í notkun.

Þetta app er frítt og til þess ætlað að auðvelda launafólki að fylgjast með og halda utan um vinnutíma sinn. Kerfið skráir viðverutíma á vinnustað og heldur meðal annars utan um veikindadaga.

Kerfið nýtir sér einnig staðsetningartækni nútímans og hægt er að láta það minna sig á að skrá sig inn og út af vinnustað. Einnig eægt er að skrá sig gegnum Facebook. Tilgangurinn er að gera launafólki kleyft að fylgjast með vinnutímum og bera saman við launaseðla til að sannreyna að rétt sé reiknað. Einnig er þetta hugsað til að auðvelda stéttarfélögunum að reikna út og sannreyna tímaskráningar og launagreiðslur ef uppi er grunur um að ekki sé rétt reiknað af hálfu launagreiðanda.

Appið má ná nálgast á eftirfarandi síðum:

Apple:

https://itunes.apple.com/us/app/klukk/id1048984062?ls=1&mt=8

Einnig aðgengilegt hjá Google hér:

https://play.google.com/store/apps/details?id=is.stokkur.klukk.android

Stéttarfélögin hvetja alla launamenn á vinnumarkaði að ná sér í þetta app og hlaða niður á farsíma sína. Appið er sáraeinfalt í notkun og ætti að vera öllum aðgengilegt.

Farið verður í öfluga kynningar herferð í febrúar af hálfu Alþýðusambandsins.

 

Afnám tolla á fatnaði og skóm um áramótin

Frá og með 1. janúar 2016 var tollur af fatnaði og skófatnaði afnuminn en megintilgangur þess er að styrkja stöðu innlendrar verslunar í samkeppni við erlenda. Um er að ræða 324 tollskrárnúmer í 12 tollskrárköflum.

Lesa meira

4. janúar 2016

Jólakveðja

Forsíðumynd (2)

Þjónustuskrifstofa stéttarfélaganna á Suðurlandi  verður lokuð 24. desember. 28 til og með 30. desember eru skrifstofurnar opnar frá kl.08.00 – 16.00. Við opnum eftir áramót mánudaginn 4. janúar kl. 08.00.

 

Starfsfólk skrifstofanna sendir félagsmönnum og fjölskyldum

þeirra jóla og hátíðarkveðjur.

23. desember 2015

Vinna um hátíðarnar

New Picture

Nú eru hátíðar að ganga í garð og eftir áramót er algengt að fyrirspurnir berist stéttarfélögunum um hvernig  þessi dagar skuli greiddir. Til dæmis þá eru dæmi um að fólk sé látið mæta t.d. klukkan tíu á aðfangadag og fari ekki á stórhátíðarkaup fyrr en eftir fjóra tíma á dagvinnu. Þetta er ekki rétt samkvæmt kjarasamningum.

Að fenginni reynslu er því rétt að koma eftirfarandi á framfæri:

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki álag á stórhátíðum, en þeir jóladagar sem eru stórhátíðir teljast:

  • aðfangadagur eftir kl. 12 (ath. samningurinn kveður á um að greiða skuli stórhátíðarálag eftir klukkan 12, óháð því hvenær vinna hefst að morgni)
  • jóladagur
  • gamlársdagur eftir kl. 12 (ath. samningurinn kveður á um að greiða skuli stórhátíðarálag eftir klukkan 12, óháð því hvenær vinna hefst að morgni)
  • nýársdagur

Annar í jólum telst auk þess almennur frídagur.

Öll vinna á stórhátíðardögum greiðist með tímakaupi, sem er 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir yfirvinnu á öðrum frídögum skal greiða 80% álag á dagvinnutímakaup eða 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Í vaktavinnu eru til tvær reglur um greiðslur á þessum dögum. Annarsvegar hjá þeim sem eru með vetrarfrí og svo hjá hinum sem ekki eru með vetrarfrí. Sjá nánar í kjarasamningum.

Þeir félagsmenn sem telja sig ekki hafa fengið greitt í samræmi við ofangreint er hvatt til að benda atvinnurekanda sínum á þetta eða hafa samband við félagið

21. desember 2015